12. desember. 2008 09:12
Framkvæmdir eru komnar á fullt við byggingu reiðhallar hestamannafélagsins Glaðs í hesthúsahverfinu í Búðardal. Starfsmenn Loftorku í Borgarnesi eru mættir á svæðið með einingar af sökkulveggjum hússins. Að sögn Eyþórs Gíslasonar formanns Glaðs er áætlað að búið verði að ganga frá sökklinum fyrir jól. Reiðhöllin verður ríflega 800 fermetrar að stærð og er efni í húsið sjálft einnig komið á staðinn, en það verður reist á stálgrind. „Það ræðst svo af tíðarfari og fleiru hvort byrjað verður að reisa húsið upp úr áramótunum eða það verði látið bíða vorsins,“ segir Eyþór, sem þó útilokar ekki að hestamenn í Dölunum geti tekið höllina í notkun seinna í vetur, þótt hún verði þá ekki fullbúin.