12. desember. 2008 10:08
 |
Veiðimenn við Norðurá |
“Stjórn Landssambands stangaveiðifélaga hvetur veiðifélög og veiðiréttareigendur til samninga við leigutaka um að lágmarka það tjón sem fyrirsjáanlegt er við núverandi aðstæður. Það er allra hagur að hægt sé að ná samningum sem báðir aðilar eru sáttir við. Vísitölutryggðar hækkanir á veiðileyfum eru ekki boðlegar og þær verður að taka úr sambandi á meðan efnahagskreppan gengur yfir. Allir verða að leggjast á árarnar svo komast megi hjá markaðslegu hruni sem engum er hagur í,” segir í ályktun sem stjórn LS samþykkti á fundi sínum 9. desember sl. Á fundinum var fjallað um hina viðsjárverðu stöðu sem upp er komin á íslenskum veiðileyfamarkaði í kjölfar breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Fram kom að veiðileyfi hafa hækkað mjög mikið undanfarin ár. “Eðlilegt er við núverandi aðstæður, að þær hækkanir gangi að hluta til baka,” segja félagsmenn í landssambandinu.
Samkvæmt heimildum Skessuhorns reyna leigjendur veiðiréttar í íslenskum laxveiðiám að fá veiðiréttareigendur til að lækka verð fyrir árnar og vilja meðal annars að verðbótaþáttur samninganna verði felldur út meðan illa árar í efnahagslífinu. Halda þeir því fram að við núverandi aðstæður muni veiðileyfi ekki seljast til íslenskra stangveiðimanna og heldur ekki til útlendinga þar sem sá orðrómur er á kreiki erlendis að efnahagsástandið hér á landi sé með þeim hætti að jafnvel sé ótryggt með flug hingað til lands næsta sumar.