12. desember. 2008 02:35
Út er komin bókin um Langá á Mýrum. Er þetta önnur bókin í nýrri ritröð um íslenskar laxveiðiár, en í fyrra kom út bókin um Laxá í Kjós og Bugðu. Útgefandi er Litróf eins og fyrr, ritstjóri hennar er Guðmundur Guðjónsson og ljósmyndari og myndstjóri Einar Falur Ingólfsson.
Bókin er í stóru broti og fá glæsilegar myndir Einars Fals að njóta sín í henni. Eldri myndir í bókinni eru fengnar að láni frá þeim Ragnheiði Jóhannesdóttur og Stefáni Ólafssyni á Litlu Brekku sem reka Ensku húsin. Veitt er ágæt innsýn inn í gamla tímann við Langá en áin á sér langa laxveiðisögu sem rakin er í bókinni í máli og myndum. Eru m.a. til skráðar veiðiskýrslur fyrir Langá allt aftur til ársins 1900 og eru í bókinni birtar handskrifaðar síður úr þessum gömlu skýrslu.
Í bókinni er að finna veiðistaðalýsingu þar sem fylgdarmaður er Ingvi Hrafn Jónsson, leigutaki árinnar til fjölda ára. Því næst er fjöldi frásagna og hugleiðinga um ána frá ýmsum sem veitt hafa í ánni. Einstök fiskvegagerð Langár er og skráð með gömlum myndum sem flestar eru úr einkasafni Jósefs Reynis arkítekts sem kom að smíði allra fiskvega Langá yfir 30 ára tímabil. Bókinni er síðan lokað með “gamla albumin” þar sem fjöldi mynda úr ýmsum áttum eru birtar. Bókin um Langá er 192 blaðsíður. Þess má að lokum geta að næsta viðfangsefni höfundar er Grímsá í Borgarfirði.