15. desember. 2008 07:38
„Það stefnir í að tvöföldun Hvalfjarðarganga og þjóðvegarins um Kjalarnes verði verkefni ríkisins og með það verkefni verði farið sem aðrar hefðbundnar vegaframkvæmdir ríkisins. Þeim tilmælum er því beint til þingmanna Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórna sem hagsmuna hafa að gæta, að knýja á um að þessari framkvæmd verði fundinn staður í samgönguáætlun, en að sem allra fyrst verði hafist handa við nauðsynlega hönnunarvinnu,“ segir Gísli Gíslason stjórnarformaður Spalar í nýútkominni ársskýrslu fyrirtækisins.
Þar segir einnig að þó svo að nú kreppi að í fjármálum þjóðarinnar og þrátt fyrir að dregið hafi lítillega úr umferð, blasi við eftir sem áður að brýnt sé að hraða undirbúningi þessara verkefna beggja. „Arðsemi þeirra fyrir þjóðarbúið og samfélagið er ótvíræð og þegar leitað er eftir atvinnuskapandi, arðsömum verkefnum hlýtur að vera mjög áhugavert að hefjast handa sem fyrst við verkefni sem þetta. Af hálfu stjórnar Spalar ehf. hefur verið boðið að félagið geti haft aðkomu að fjármögnun á hluta nýrra ganga. Stjórnvöld hafa ekki sýnt þeirri viðleitni sérstakan áhuga þannig að ólíklegt er á þessari stundu að félagið komi að málum með öðrum hætti en að fylgja því eftir að undirbúningsgögn vegna tvöföldunar þjóðvegar á Kjalarnesi verði kláruð,“ segir stjórnarformaðurinn í ársskýrslu Spalar.
Stefnt að óbreyttu gjaldi
Á aðalfundi Spalar kom einnig fram að stjórn fyrirtækisins ætlar í lengstu lög að halda veggjaldi í Hvalfjarðargöngum óbreyttu þrátt fyrir að verðbólga og minnkandi umferð breyti rekstrarforsendum félagsins svo um munar. Verði verðbólgan veruleg áfram, og haldi umferð áfram að dragast saman, blasir hins vegar við að hækka þurfi veggjaldið svo Spölur geti staðið við skuldbindingar sínar. Veggjald í göngunum hefur undanfarin ár lækkað verulega bæði í krónum talið og miðað við verðlag í landinu. Umferðin jókst nánast stöðugt og auknar tekjur Spalar voru að stórum hluta notaðar til að greiða niður skuldir. Við blasti að félagið yrði að óbreyttu skuldlaust 2015 eða 2016 en efnahagskreppan setti strik í þann reikning. Frá því í apríl 2008 hefur umferð dregist verulega saman miðað við sama tímabil í fyrra og aukin verðbólga gerir það að verkum að skuldir Spalar standa sem næst í stað frá því í fyrra.
Gísli Gíslason sagði í skýrslu stjórnar til aðalfundar að miðað við óbreyttar forsendur mætti ætla að félagið yrði skuldlaust einu til tveimur árum síðar en áður var miðað við. Hann bætti við: ,,Næstu mánuðir skera úr um hvort grípa þurfi til gjaldskrárbreytinga vegna breyttra aðstæðna en meginstefna félagsins er samt sú að halda óbreyttri gjaldskrá.”
Mikil afkomusveifla á einu ári
Fram kom í máli Gylfa Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Spalar, að rekstur Spalar væri traustur þrátt fyrir að ytri aðstæður hefðu snarversnað þegar leið á árið 2008. Nýbirtur ársreikningur sýndi að vísu tap upp á 386 milljónir króna en rekstrarhagnaður á árinu þar á undan nam 275 milljónum króna. Í nýju tölunum birtast fyrst og fremst áhrif verðbólgunnar á fjármunaliði ársuppgjörsins. Handbært fé frá rekstri nam um 550 milljónum króna. Heildarskuldir félagsins nema 3,9 milljörðum króna, þar af langtímaskuldir 3,6 milljörðum króna. Langstærstur hluti skuldanna er í íslenskum krónum. Rekstrarár félagsins er frá 1. október til septemberloka og var kaflaskipt svo ekki sé meira sagt: Góðærisyfirbragð á fyrri hluta tímabilsins en augljós og snögg kreppueinkenni á þeim síðari. Í heildina tekið var jókst umferðin í göngunum um 0,3% en mánuðina apríl til september dróst hún saman um 4% miðað við sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins drógust enn meira saman eða um 5,8% frá fyrra rekstrarári. Það skýrist annars vegar af lækkun veggjalds 1. mars 2008 og hins vegar af því að þeim vegfarendum fjölgar hlutfallslega sem nýta sér áskriftar- og afsláttarkjör fremur en að kaupa stakar ferðir.
Því er við þetta að bæta að skuldum Spalar var árið 2005 breytt úr erlendum lánum í íslensk. Þetta var gert á þeim tíma sem gengi íslensku krónunnar var mjög hátt miðað við erlenda gjaldmiðla. Nú þegar gengi krónunnar hefur hríðfallið kemur þessi aðgerð sér afar vel fyrir efnahag Spalar og ber vott um býsna skynsamlega fjármálastjórn fyrirtækisins.