15. desember. 2008 11:55
Nýr golfvöllur, Reykholtsdalsvöllur, var tekinn í notkun að Nesi í Reykholtsdal í júní á liðnu sumri. Reistur var skáli með veitingaaðstöðu við völlinn. Völlurinn sjálfur liggur milli þjóðvegarins og Reykjadalsár um tvo kílómetra vestan við Reykholt. Hluti gesta sem heimsóttu völlinn í sumar lýsti áhuga á að taka þátt í golfklúbbi sem hefði Reykholtsdalsvöll að aðsetri og heimavelli. Haldinn var undirbúningsfundur fyrir skömmu og hefur nú verið ákveðið að boða til stofnfundar golfklúbbsins laugardaginn 27. desember n.k. klukkan 16.00 í golfskálanum að Nesi.
Þar verða lagðar fram tillögur að stofnun klúbbfélagsins, heiti þess og samþykktum fyrir félagið, sem væntanlega verður aðili að Ungmennasambandi Borgarfjarðar og Golfsambandi Íslands. Áhugafólk er velkomið á fundinn og til þátttöku í félaginu sem kemur til með að starfa samkvæmt reglum Golfsambandsins líkt og aðrir golfklúbbar í landinu.
(fréttatilkynning)