16. desember. 2008 08:08
Umhverfisráðuneytið hefur samþykkt endurnýjun á starfsleyfi Laugafisks á Akranesi sem Heilbrigðisnefnd Vesturlands gaf út 31. janúar sl. Samþykkt ráðuneytis fyrir starfsleyfinu er gerð að undangengum úrskurði á tveimur stjórnsýslukærum sem nágrannar Laugafisks sendu vegna endurnýjunar starfsleyfis, en umfjöllunartími ráðuneytis um kærurnar var lengri en reiknað var með og venjulegt er. Nágrannar Laugafisks hafa ítrekað kvartað undan lyktarmengun frá fyrirtækinu og finnst að lítið hafi áunnist í þeim málum. Gildistími nýs starfsleyfis til Laugafisks er til næstu tólf ára.
Bæjarráð Akraness gerði á fundi sínum í síðustu viku ekki athugasemd við leyfisveitinguna eins og hún er afgreidd frá ráðuneytinu, en krefst þess að besti búnaður til þeirrar vinnslu sem fram fer hjá Laugafiski, sé notaður.
Í úrskuði ráðuneytisins er meðal annars tilgreind þessi atriði: Loftflæðistreymi í þurrkklefa skal ávallt stillt á þann hátt að lyktarmyndun sé haldið í lágmarki. Eftirlit og viðhald með vélum og mengunarvarnabúnaði skal ávallt vera með þeim hætti að ekki eigi sér stað óleyfileg útlosun. Hráefni og ólífrænan úrgang skal ávallt geyma vel kælt. Þá segir í úrskurði ráðuneytis að eftirlitsaðili skuli haga tíðni og umfangi eftirlits svo og öðrum viðbrögðum vegna starfseminnar með sérstöku tilliti til lyktarmengunar og kvartana er kunna að berast vegna hennar.