19. desember. 2008 10:26
Á Bókasafni Akraness stendur nú yfir sýning á jólakortum úr gríðarmiklu kortasafni Jóhönnu J. Þorgeirsdóttur. Jóhanna fæddist á Litla-Bakka á Akranesi árið 1930 en lést í apríl árið 2006. Á vormánuðum það ár afhenti eftirlifandi eiginmaður hennar, Hjalti Jónasson, bókasafninu kortasafn Jóhönnu með því eina skilyrði að það yrði geymt sem heild. Safnið er geymt í 218 albúmum og kortin eru rúmlega 35 þúsund talsins í heild.
Ýmissa grasa kennir í safninu en meginhlutinn samanstendur af afmælis-, jóla-, nýárs- og fermingarkortum. Uppistaðan er frá árunum 1920-1960 þótt í safninu megi finna kort sem eru bæði eldri og yngri en það.
“Í fjórum sýningarkössum er sitt hvert þemað í jólakortum,” segir Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir bóksafns- og upplýsingafræðingur á Bókasafni Akraness um sýninguna. “Einn sýnir íslensku jólasveinana, annar hinn ameríska sankti Nikulás, í þeim þriðja bera kortin kristilegan boðskap og í þeim fjórða eru jólakort sem eru að einhverju leyti sérkennileg.”
Sýningin mun standa til þrettánda dags jóla, 6. janúar 2009.