19. desember. 2008 03:17
Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði, í samvinnu við Skógræktarfélag Borgarfjarðar, verður með jólatrjáasölu í Daníelslundi á morgun, laugardaginn 20. desember og sunnudaginn 21. desember frá kl. 12 til 16. Björgunarsveitin Heiðar hefur aðsetur í Varmalandi og er aðstoð á Holtavörðuheiði hennar algengasta verkefni, ásamt því að hafa yfir að ráða snjóbíl, sem er oft kallaður út ef um aðstoð eða leit er um að ræða á Langjökli og er hann fyrir löngu búinn að sanna gildi sitt. Skemmst er að minnast útkalls á jökulinn 30. desember á síðasta ári þar sem bíllinn fór í aftakaveðri til aðstoðar fólki en björgunarsveitarmenn muna ekki þvílíkt veður eins og þá geisaði. Öll vinna við björgunarsveitir Landsbjargar er unnin í sjálfboðavinnu og því treysta sveitirnar á góðvild almennings.