28. desember. 2008 08:25
 |
Illa farin hönd eftir flugeldaslys |
“Tölfræðin sýnir okkur að dagana fyrir og eftir áramót eru drengir í mestri hættu þegar kemur að flugeldaslysum. Flest verða þau þegar þessi hópur tekur í sundur flugelda og gerir úr þeim sprengjur sem valda alvarlegustu slysunum; jafnvel örkumlun. Bruni á höndum og augnskaðar eru algengustu áverkarnir en auðvelt er að minnka hættu á þeim með notkun öryggisgleraugna og leður- eða ullarvettlinga,” segir í tilkynningu frá Landsbjörgu. Félagið vill hvetja til þess að fólk nálgist og noti öryggisgleraugu sem má fá á öllum flugeldasölustöðum björgunarsveitanna. Þá segir að börn yngri en 16 ára mega ekki kaupa flugelda og ættu forráðamenn þeirra að gæta þess að þau hafi þá ekki undir höndum. Á gamlárskvöldið sjálft eru það fjölskyldufeður landsins sem helst eru að slasa sig, yfirleitt með ógætilegri meðferð flugelda. Eins og allir vita fara áfengisneysla og flugeldar ekki saman.
Nauðsynlegt er að gefa dýrum gaum um áramótin, þau skilja ekki frá hverju ljósagangur, hvellir og púðurlykt stafa og geta fyllst óöryggi. Best er að hafa dýr ekki úti á gamlársdag, draga fyrir glugga og hafa opið fyrir útvarp þar sem þau eru.
Nauðsynlegt er að hafa glugga heimilisins lokaða á gamlárskvöld til að koma í veg fyrir að flugeldar eða neistar frá þeim komist inn.
Með kveðju frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu