22. desember. 2008 12:56
Björgunarsveitir eru nú í viðbragðsstöðu vegna veðurspár sem gerir ráð fyrir asahláku og stormi þegar líður á daginn. Gera menn ráð fyrir að mikið hækki í ám og að þær geti flætt yfir bakka sína. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vekur athygli á viðvörun frá Veðurstofunni en gert er ráð fyrir stormi víða um land. Hér á Vesturlandi er gert ráð fyrir hvassasta veðrinu. Í tilkynningu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir að mikilvægt sé að fólk hreinsi vel frá niðurföllum og tryggi að úrkoma og leysingavatn eigi greiða leið í þau. Þá hvetur almannavarnadeild RLS fólk auk þess til að huga vel að lausum munum, fara varlega og fylgjast vel með fréttum af veðri og færð. Gert er ráð fyrir stormi hér vestanlands þegar líður undir kvöld. Það verður vestan 13-20 m/s um og eftir hádegi og víða rigning. Síðan gengur í sunnan 15-25 m/sek. í kvöld, hvassast vestast og á miðhálendinu.
Hlýnandi, hiti yfirleitt á bilinu 3 til 10 stig undir kvöld. Suðvestan 13-23 á morgun og él, hvassast norðvestantil. Léttskýjað að mestu á Norðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 0 til 5 stig.