22. desember. 2008 03:30
Nemendur og starfsfólk Grundaskóla á Akranesi afhentu Rauða krossinum afrakstur jólasöfnunar skólans sl. föstudag. Í fyrra söfnuðust um 300 þúsund krónur og kom svipuð upphæð upp úr söfnunarbaukunum nú. Nemendafélag skólans hóf söfnunina með fjárframlagi sem nam 100 krónum á hvern nemenda skólans eða alls 60 þúsund krónur. Hólmfríður Garðarsdóttur tók við styrknum úr hendi nemenda Grundaskóla. Hún starfar fyrir Rauða krossinn og er með aðsetur í Malaví. Hún fræddi börnin um mikilvægi þessarar gjafar og hvernig peningarnir verða notaðir. Rauði kross Íslands styður starf malavíska Rauða krossins í Nkalo og Mwanza héruðunum. Þar hlúa sjálfboðaliðar að alnæmissjúkum, ungliðar fræða jafnaldra sína og börn eru studd til mennta.