30. desember. 2008 02:11
Aðeins urðu tvö umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í síðastliðinni viku og voru þau bæði án meiðsla. Fólksbifreið varð óökuhæf eftir að hún lenti skyndilega í djúpri holu á merktu vinnusvæði á þjóðveginum við Hraunsnef í Norðurárdal. Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru og fylltu í holuna.
Tveir ökumenn, piltur og stúlka, voru tekin í sitt hvoru lagi af lögreglu fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæminu í vikunni. Pilturinn var stöðvaður þar sem hann var á akstri í Reykholtsdal en stúlkan var á þjóðveginum á Seleyri á leið norður í land. Aftan í bílnum hjá stúlkunni var stór númerslaus vélsleðakerra sem kom í ljós að var stolin og lagði lögreglan því hald á hana. Vegna ástands bifreiðarinnar voru númerin klippt af henni.
Eigandi kerrunnar kom síðan frá Reykjavík og var harla glaður að heimta kerruna sína óskemmda aftur. Hann hafði nýlokið við smíði hennar þegar kerrunni var stolið, þar sem hún stóð með “þrællæstu beisli” utan við verkstæði hans. Stúlkan mun ekki hafa verið ein að verki því í bílnum með henni voru tveir piltar á svipuðu reki. Voru þau öll yfirheyrð vegna þjófnaðarins á kerrunni. Fólkinu var síðan sleppt að yfirheyrslum loknum.