02. janúar. 2009 04:34
Hrafnhildur Tryggvadóttir, sem starfað hefur fyrir Upplýsinga- og kynningarmiðstöð Vesturlands og nú síðast Vesturlandsstofu frá því hún var stofnuð, hefur látið af störfum. Jónas Guðmundsson, forstöðumaður Vesturlandsstofu segir að Hrafnhildur hætti vegna skipulagsbreytinga. “Það var ákveðið að breyta starfi á Vesturlandsstofu í tvö 65% stöðugildi og vildi Hrafnhildur því miður ekki taka hlutastarf. Þetta er gert til að lengja opnunartíma og bæta verulega þjónustu við ferðafólk,” segir Jónas. Þessi tvö nýju hlutastörf hafa verið auglýst og rennur umsóknarfrestur um þau út næstkomandi miðvikudag, 7. janúar.
“Þessi tæpu níu ár sem ég hef starfað hér á upplýsingamiðstöðinni í Borgarnesi hafa verið afar lærdómsrík og skemmtileg. Hér hef ég kynnst fjölbreyttum hliðum ferðaþjónustunnar á Íslandi auk þess að hitta alla þessa fjölmörgu ferðamenn sem leið hafa átt um svæðið. Ég vil þakka samstarf og samskipti á liðnum árum og óska ferðaþjónustuaðilum á Vesturlandi velfarnaðar á komandi tímum,” segir Hrafnhildur í kveðju sem hún sendi frá sér í dag, á síðasta starfsdegi sínum.