07. janúar. 2009 07:29
Alls voru 126 ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum á síðasta ári og 84 ökumenn fyrir ölvun undir stýri. Er um töluverða aukningu að ræða milli ára í báðum málaflokkum, að sögn Theodórs Þórðarsonar yfirlögregluþjóns í Borgarnesi. Á árinu 2007 voru 93 teknir við akstur undir árhrifum fíkniefna og 68 vegna ölvunaraksturs. Að mati lögreglu felst mikil slysavörn í því að stöðva akstur þeirra sem eru undir áhrifum vímuefna áður en þeir valda sjálfum sér og öðrum tjóni. Einnig mikið forvarnarstarf þar sem stundum leiða afskipti lögreglu til þess að viðkomandi einstaklingur fer í framhaldinu í áfengis- og vímuefnameðferð á viðeigandi stofnun og hættir allri neyslu, að sögn Theódórs.