13. janúar. 2009 05:49
Ólafur Þór Hauksson, sem dómsmálaráðherra skipaði í dag sérstakan saksóknara í rannsókn á aðdraganda bankahrunsins vitnar í ummæli ágæts lagapróffesors sem sagði fyrir skömmu að það yrðu vandfundnar vinsældirnar sem fylgdu þessu starfi. "Ég tek undir það. Embættismenn hvort sem þeir eru sýslumenn eða lögreglustjórar þurfa oft að standa skil á óvinsælum verkefnum og þannig verður það vafalítið einnig með þetta embætti,” sagði Ólafur Þór í samtali við Skessuhorn nú síðdegis. Hann segir að undirbúningur að stofnun embættis sérstaks saksóknara sé rétt að byrja. “Starf mitt byrjar strax og fyrsta verk verður að byggja upp starfhæfa einingu frá grunni. Það er engin leið að áætla umfang þeirrar vinnu sem framundan er þar sem það liggja ekki fyrir hvaða mál það eru sem embættið þarf að vinna í. Við munum hafa okkar fyrstu verkefni að reyna að meta þau verkefni sem þarna koma inn á borð. Undirbúningur hefst strax í dag með leit að hentugu húsnæði, finna út mannaflaþörf í upphafi og fleira slíkt. Þetta embætti mun hafa á hendi rannsóknir og skýrslutökur og því er ljóst að inn í embættið þurfa m.a. að koma lögreglumenn, enda hefur hinn sérstaki saksóknari allar heimildir lögreglustjóra,” segir Ólafur.