20. janúar. 2009 11:42
Snæfell heldur áfram á sigurbraut og vann sinn fjórða leik í röð í Iceland Express deild karla þegar þeir sóttu Þór heim á Akureyri í gærkvöldi, 56:74. Á sama tíma töpuðu Skallagrímsmenn fyrir FSu á heimavelli í Borgarnesi 63:77. Snæfell er nú komið í vænlega stöðu í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Keflvíkingum með 18 stig og næstu lið Tindastóll og Njarðvík eru fjórum stigum fyrir neðan. Það var aðeins í byrjun leiksins fyrir norðan sem Þórsarar höfðu frumkvæðið. Eftir það var engin spurning um hvort liðið væri sterkara. Atli Rafn Hreinsson þótti eiga góðan leik í Snæfellsliðinu. Atli skoraði 11 stig. Nýi ameríkaninn, Lucius Wagner, komst ágætlega inn í leikinn, þrátt fyrir að vera nánast nýlentur á landinu. Hann skoraði 15 stig. Hlynur Bæringsson var atkvæðamikill, skoraði 20 stig og tók fjölda frákasta. Jón Ólafur Jónsson gerði 10 stig, Sigurður Þorvaldsson 8, Slobodan Subasic 5 og Egill Egilsson 5. Stigahæstur hjá Þór var Guðmundur Jónsson með 16 stig.
Þrátt fyrir að Skallagrímsmenn þyrftu að játa sig sigraða fyrir Fjölbrautaskólapiltunum frá Selfossi var um hörkuleik að ræða, þar sem liðin skiptust á forustunni. Það var ekki fyrr en í þriðja leikhluta sem gestirnir að Suðurlandinu náðu fastatökunum og unnu í lokin sannfærandi sigur, 63:77.
Hafþór Ingi Gunnarsson lék að nýju með Skallagrími eftir árshlé vegna slæmra hnémeiðsla. Hafþór komst vel frá leiknum og fær nú góða hvíld eins og félagar hans, en næsta umferð í deildinni fer ekki fram fyrr en undir lok mánaðarins. Landon Quick var að venju stigahæstur hjá Skallagrími með 16 stig, Igor Beljanski gerði 12, Sveinn Davíðsson 11, Hafþór Gunnarsson 10, Arnar Guðjónsson 7, Sigurður Þórarinsson 4 og Trausti Eiríksson 3. Hjá FSu var Sævar Sigurmundsson stigahæstur með 22 stig.