21. janúar. 2009 03:29
Hópur fólks í Dalabyggð og Reykhólahreppi hefur á undanförnum mánuðum tekið þátt í verkefninu Vaxtarsprotum og er því nú formlega lokið. Þátttakendur unnu allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í heimabyggð og eiga mörg þessara verkefna eftir að koma til framkvæmda eða eru þegar komin á framkvæmdastig, að sögn Elínar Aradóttur, verkefnisstjóra hjá Impru. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni m.a. á sviði matvælaiðnaðar og ferðaþjónustu. Vaxtarsprotar er heildstætt stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum landsins. Verkefnið, sem er á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, hóf göngu sína á árinu 2007, en hefur síðan komið til framkvæmdar víða um land.
Framkvæmd verkefnisins í Dalabyggð og Reykhólahreppi var unnin í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Búnaðarsamtök Vesturlands. Þátttakendum í verkefninu hefur staðið til boða margvíslegur stuðningur. Boðið hefur verið upp á námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja, einstaklingsbundna leiðsögn, auk þess sem ýmsir styrkjamöguleikar hafa verið kynntir.
Ólík viðfangsefni
Þátttakendurnir sem nú luku námskeiði á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins voru 20 talsins, en samtals unnu þeir að 15 verkefnum. Viðfangsefni þátttakenda voru af ólíkum toga. Má þar nefna arnarsetur, þaraböð, reykskemmu, hvannalambaræktun, sturlungavöll, vélaútgerð, rjómabú, gokart og heilsurjóður auk verkefna að staðbundinni ferðaþjónustu.