23. janúar. 2009 09:10
Enn er óveður í Staðarsveit og víðar á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þó hefur veður gengið niður þar síðan í gærkvöldi þegar vind sló í 55 metra á sekúndu í hviðum við Hraunsmúla. Þá er ennþá talsvert hvasst á Laxárdalsheiði í Dölum sem og við Hafnarfjall, á Kjalarnesi og víðar á Vesturlandi. Veður er þó að ganga niður og spá veðurfræðingar því að skaplegt veður verði komið eftir hádegi í dag. Vegagerðin segir í tilkynningu að enn sé stórhríð á Fróðárheiði á Snæfellsnesi. Þá er hálka og hálkublettir víðast hvar í landshlutanum.
Á Vestfjörðum er óveður á Klettshálsi, Gemlufallsheiði og á Steingrímsfjarðarheiði. Vegfarendur eru beðnir um að athuga vel akstursskilyrði áður en lagt er af stað. Á Suðurlandi eru hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslunum. Hálka og hálkublettir eru víða á útvegum. Flughált er í kringum Þingvallavatn. Flughált er á Krýsuvíkurvegi og Ísólfsskálavegi. Á Vestfjörðum er þungfært í Ísafjarðardjúpi og þæfingur á Steingrímsfjarðarheiði og beðið með mokstur þar til veður lagast. Óveður og hálka er á Gemlufallsheiði. Hálka og skafrenningur er á Mikladal og Hálfdán. Ófært er á Kleifaheiði og á Klettshálsi en þar er vonskuveður. Á Norðurlandi er ófært á Þverárfjalli, hálka á Vatnsskarði og hálkublettir víða í Skagafirði. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.
Á Norðaustanlands er hálka og hálkublettir. Flughált er á Mývatnsheiði. Á Austurlandi er víða hálka eða krapi en þó að mestu autt með ströndinni. Á Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheið er þæfingur og mokstur stendur yfir. Flughált er á Fjarðarheiði og skafrenningur eins er flughált á Hróarstunguvegi og á Borgarfjarðarvegi.