28. janúar. 2009 07:45
Fjögur umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í liðinni viku, þar af tvær bílveltur þar sem afleiðingar eru raktar til hálku. Önnur bílveltan varð á þjóðveginum sunnan Skarðsheiðar en hin á Snæfellsnesvegi nærri Heydalsafleggjara. Ökumenn bílanna sem ultu voru báðir í öryggisbeltum og sluppu þeir án mikilla meiðsla. Annar ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Bílarnir skemmdust mikið og voru fluttir á brott með kranabílum.
Alls voru fimm ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæmi LBD í liðinni viku. Á sama tíma var einn tekinn fyrir ölvunarakstur. Frá áramótum hafa átta ökumenn verið teknir fyrir fíkniefnaakstur en tveir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar.