29. janúar. 2009 11:20
Í dag klukkan 12:00 opnaði nytjamarkaðurinn Búkolla að Vesturgötu 62 á Akranesi. Búkolla verður þar sem tréiðnabraut FVA var áður til húsa. Búkolla verður fyrst um sinn opin fimmtudaga og föstudaga frá kl. 12:00 til 16:00 og laugardaga frá kl. 10:00 til 14:00 en opnunartími ræðst nokkuð af því hversu vel gengur að fá muni til sölu á markaðnum. Fólk er því hvatt til að nýta sér nytjagáma til að losna við dót úr geymslum og bílskúrum. Allur ágóði af starfsemi Búkollu rennur í rekstur staðarins til að skapa störf fyrir öryrkja á Akranesi en að verkefninu standa Endurhæfingarhúsið HVER, Fjöliðjan, Akranesstofa og Gámaþjónusta Vesturlands.
Tilgangur verkefnisins er að sjá til þess að nýtanlegir og seljanlegir hlutir gangi í endurnýjun lífdaga í þágu góðs málstaðar, ekki ósvipað og Góði hirðirinn í Reykjavík, sem rekinn hefur verið með góðum árangri undanfarin ár. Um leið skapast spennandi og um leið krefjandi verkefni fyrir fólk sem þarf á stuðningi og hvatningu að halda og tækifæri til að fóta sig að nýju sem þátttakendur í daglegu lífi. Þá er Búkolla verkefni sem setur svip á bæjarlífið, vekur athygli á bænum og skapar tilefni fyrir gesti að heimsækja bæinn og skoða í kirnu Búkollu um leið.
Fólk er hvatt til að kíkja í heimsókn til Búkollu og skoða margvíslegan varning sem þar er í boði; húsgögn, bækur, skrautmuni, gjafavöru, fatnað og ýmsan húsbúnað.