Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
01. febrúar. 2009 05:09

Verkefnaskrá ríkisstjórnar í heild sinni

Jóhanna, verðandi forsætisráðherra

"Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs verður til við afar erfiðar aðstæður í íslensku samfélagi. Stjórnin er mynduð til að tryggja landinu starfhæfa ríkisstjórn sem hrindi í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags," segir í tilkynningu sem Samfylkingin og VG hafa sent frá sér vegna hinnar nýju ríkisstjórnar.

Skessuhorn birtir hér í heild sinni verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, eins og hún lítur út í samstarfssamningi flokkanna:

 

 

 

 

 

"Ríkisstjórnin tekur í arf gríðarlega erfiðleika vegna banka- og kerfishruns, einnig miklar og ört vaxandi erlendar skuldir og ábyrgðir þjóðarbúsins. Stjórnin byggir því á mjög aðhaldssamri og ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum en mun jafnframt hafa í heiðri félagsleg gildi, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsi, jöfnuð og réttlæti.

 

Ríkisstjórnarflokkarnir eru sammála um mikilvægi þess að efnt verði til kosninga eins fljótt og aðstæður leyfa svo mynda megi ríkisstjórn á grunni endurnýjaðs umboðs frá þjóðinni að þeim loknum.

 

Framsóknarflokkurinn mun verja stjórnina vantrausti. Einnig hefur verið haft samráð við formann Frjálslynda flokksins í stjórnarmyndunarviðræðunum.

 

 

I. Aukið lýðræði, jöfnuður og upplýsingar

 

Ný ríkisstjórn leggur sérstaka áherslu á virka upplýsingagjöf til íslensku þjóðarinnar um stöðu landsmála og aðgerðir til þess að rétta efnahagslífið af eftir þau áföll sem dunið hafa á fjármálakerfi landsins.

 

Ný ríkisstjórn mun leitast við að hafa víðtækt samráð við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu.

 

Starfað verður samkvæmt nýjum siðareglum í stjórnarráðinu þar sem ráðherra og æðstu embættismenn skulu opinbera fjárhagslegar skuldbindingar og hagsmunatengsl.

 

Eftirlaunalögin verða afnumin og um alþingismenn og ráðherra munu gilda almennar reglur um lífeyriskjör opinberra starfsmanna.

 

Hafinn verður undirbúningur að setningu nýrra reglna um skipan hæstaréttar- og héraðsdómara.

 

Hafin verður vinna við endurskoðun laga um ráðherraábyrgð.

 

Breytingar verða gerðar á eftirtöldum atriðum í stjórnarskrá lýðveldisins:

 

a)      Kveðið verður á um auðlindir í þjóðareign.

b)      Sett verður ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.

c)      Aðferð við breytingar á stjórnarskrá með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Lög verða sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings.

 

Kosningalögum verður breytt með þeim hætti að opnaðir verða möguleikar á persónukjöri í kosningum til Alþingis.

 

 

II.Endurreisn efnahagslífsins

 

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar byggir á fyrirliggjandi áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lögð verður áhersla á frekari kynningu áætlunarinnar gagnvart almenningi. Framvinda áætlunarinnar verður rædd við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og leitað markvissra leiða til að lækka vexti eins fljótt og kostur er og tímasett áætlun gerð um rýmkun hafta.

 

Fylgt verður ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum þar sem staðinn verður vörður um stoðir velferðarkerfisins og grunnþjónustu samfélagsins um leið og unnið verður markvisst að því að jafnvægi náist milli útgjalda og tekna ríkisins.

 

 

III. Endurskipulagning í stjórnsýslu

 

Ráðist verður í skipulagsbreytingar í stjórnkerfinu til að tryggja markvissa framkvæmd efnahagsaðgerða stjórnvalda og endurnýja traust á fjármálakerfi landsins.

 

Skipt verður um yfirstjórn Seðlabanka Íslands og lögum um Seðlabankann breytt þannig að skipaður verði einn seðlabankastjóri sem ráðinn verður á faglegum forsendum. Komið verður á fót peningastefnuráði sem fari með ákvarðanir um beitingu allra stjórntækja bankans, þ.e. stýrivaxta, bindiskyldu og lausafjárreglna. Hafin verður endurskoðun á peningamálastefnu Seðlabankans.

 

Skipuð verður ný yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins og gerðar breytingar á yfirstjórn einstakra ráðuneyta. Erlendir sérfræðingar verða fengnir til starfa til að liðsinna Fjármálaeftirlitinu.

 

Kannað verður hvort og hvernig megi styrkja lagaheimildir til að unnt verði að kyrrsetja eignir ef slíks er þörf til að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins, að virtum ákvæðum stjórnarskrárinnar.

 

 

IV. Aðgerðir í þágu heimila

 

Ríkisstjórnin mun grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagslegum vanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Sett verður á fót velferðarvakt í samvinnu ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og annarra aðila sem mun fylgjast með félagslegum afleiðingum bankahrunsins og gera tillögur um aðgerðir til að mæta þeim.

 

Ríkisstjórnin mun í febrúar leggja fram frumvörp til laga á Alþingi um greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun gengistryggðra lána ogfrestun nauðungaruppboða vegna íbúðarhúsnæðis í allt að sex mánuði meðan reynt verður að tryggja búsetuöryggi til frambúðar. Gjaldþrotalögum verður breytt með þeim hætti að staða skuldara verði bætt.

 

Húsnæðislán gömlu viðskiptabankanna verða færð til Íbúðalánasjóðs eða með öðrum hætti tryggt að greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs verði að fullu virk gagnvart fasteignaveðlánum einstaklinga hjá ríkisbönkunum.

 

Að auki verður langtímaáætlun um hvernig skuldavanda heimilanna verði frekar mætt lögð fram eigi síðar en í lok mars. Henni mun fylgja mat á stöðu mismunandi tekju- og aldurshópa, tillögur um fjármögnun, mat á kostnaði ríkissjóðs og áhrifum á fjármálastöðugleika.

 

Sett verða lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

 

 

V. Aðgerðir í þágu atvinnulífs

 

Ríkisstjórnin mun endurskoða framkvæmdaáform opinberra aðila með það fyrir augum að beina framkvæmdum í verkefni sem eru þjóðhagslega arðbær og krefjast mikillar vinnuaflsþátttöku. Kynnt verður tímasett áætlun um opinberar framkvæmdir og útboð á árinu. Engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar.

 

Heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna viðhaldsverkefna á íbúðarhúsnæði verða rýmkaðar og tekin verður upp full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu manna á byggingastað við slík viðhaldsverkefni.

 

Ráðist skal í sértæk átaksverkefni með öflugum vinnumarkaðsaðgerðum til að vinna gegn atvinnuleysi.

 

Leitað verður leiða til þess að örva fjárfestingu innlendra og erlendra aðila og sköpun nýrra starfa á almennum vinnumarkaði.

 

Aðlaga þarf lánareglur LÍN breyttu efnahagsumhverfi þannig að atvinnulausir geti byggt upp þekkingu sína og færni með því að stunda lánshæft nám í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur.

 

Breyta þarf lögum um Byggðastofnun hvað varðar eiginfjárhlutfall og fleira til að efla útlánagetu stofnunarinnar.

 

Félags- og tryggingamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu verður falið að meta sérstaklega áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna. Ríkisstjórnin er einhuga um að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi.

 

 

VI. Aðgerðir til að byggja upp fjármálakerfið og greiða úr vanda fyrirtækja

 

Ríkisstjórn mun sjá til þess að fjármálastofnanir gangi hratt og örugglega til verks við að greiða úr vanda lífvænlegra fyrirtækja á grundvelli gegnsærra og alþjóðlega viðurkenndra reglna. Gætt skal sanngirni og jafnræði í þjónustu við fyrirtæki og huga sérstaklega að því að viðhalda virkri samkeppni.

 

Verðmati á eignum nýju ríkisbankanna verður lokið hið allra fyrsta samhliða endurfjármögnun þeirra. Eyða þarf óvissu sem hamlar starfsemi bankanna, svo sem samningum við kröfuhafa, innlenda og erlenda, þar með taldar kröfur vegna innstæðutrygginga.

 

Ríkisstjórnin mun setja nýju bönkunum útlánamarkmið vegna ársins 2009 til að örva hagkerfið.

 

 

VII. Alþjóðasamningar og Evrópusamstarf

 

Tekið verður saman yfirlit um lántökur og heildarskuldbindingar þjóðarbúsins og kynnt almenningi.

 

Alþjóðlegir sérfræðingar verða ráðnir til að veita aðstoð við samninga á alþjóðavettvangi í samráði við ríkisstjórn um skuldir þjóðarbúsins. Þetta á við um alþjóðlega samninga vegna innstæðutrygginga, samskipti við erlenda kröfuhafa íslensku bankanna og ýmis álitaefni er tengjast endurreisn bankanna.

 

Evrópunefnd verður falið að ljúka störfum við úttekt á viðhorfum hagsmunaaðila til Evrópusambandsins. Nefndin skili skýrslu 15. apríl 2009 sem hafi að geyma mat á stöðu og horfum Íslands gagnvart samstarfi við Evrópuþjóðir og framtíðarhorfum í gjaldmiðlamálum. Stjórnarflokkarnir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verði aldrei ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu."

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is