03. febrúar. 2009 02:00
 |
Hvalfjörður |
Í kjölfar samþykktar á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra lagði til að aðilum sem tengdust hval- og hrefnuveiðum yrði send formleg viðvörun um hugsanlega afturköllun eða breytingar á útgefinni reglugerð fyrrv. sjávarútvegsráðherra til hval- og hrefnuveiða, brugðust forsvarsmenn Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaðar hart við og hafa nú boðað til opins fundar um hvalveiðimálin í Tónbergi sal Tónlistarskóla Akraness nk. fimmtudagskvöld kl. 20:00.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði að öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis og hagsmunaaðilum hefði verið boðið til fundarins og skorað væri á ráðherra í ríkisstjórninni, forsætisráðherra, sjávarútvegsráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra að mæta til fundarins.
„Okkur sýnist málið komið í þann farveg að afturkalla eigi leyfi til hval- og hrefnuveiða sem Einar Kr. Guðfinnsson gaf út. Í ljósi yfirlýsinga nýrrar ríkisstjórnar um nauðsyn þess að auka atvinnu í landinu, væri það óskiljanlegt með öllu ef eitt af fyrstu verkum hennar yrði að afturkalla þetta leyfi. Í dag eru um 13.300 manns án atvinnu í landinu, þar af 450 á okkar félagssvæði. Þegar það liggur fyrir að hval- og hrefnuveiðar gætu veitt 200-300 manns atvinnu í Hvalfirði og á Akranesi, þá er þetta með öllu ólíðandi,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.