05. febrúar. 2009 09:29
Hoffell SU 80 kom um níuleitið í morgun með fullfermi af gulldeplu til bræðslu á Akranesi. Að sögn Einars Guðmundssonar hjá Akraneshöfn landaði Júpíter 800 tonnum af deplunni í gær og Bjarni Ólafsson AK 830 tonnum á mánudagskvöld. Mjölið af gulldeplunni þykir mjög salt og því er óvíst hvernig gengur að selja það án þess að blanda því saman við annað. Hinsvegar er lýsið talið mjög gott. Þessa stundina eru starfsmenn Faxaflóahafna á Akranesi að draga Faxa RE til hafnar á Akranesi en bilun kom upp í vél skipsins þegar það var að veiðum í gær. Faxi hefur innanborðs um 800 tonn af gulldeplu. Togarinn Otto N Þorláksson tók Faxa fyrst í tog en Jötunn, nýi lóðsbáturinn á Akranesi, mun draga skipið síðasta spölinn til hafnar.
“Það er aldeilis munur að fá aukið líf hér í höfnina. Lítið hefur verið um skipakomur undanfarin misseri. Við fengum nokkur skip inn með loðnu á síðustu vertíð, nokkur skip komu með kolmunna í haust og lítilsháttar barst á Akranes af síld,” sagði Einar.