11. febrúar. 2009 09:12
Karvel Lindberg Karvelsson bóndi á Hýrumel í Borgarfirði hefur ákveðið að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi. Karvel óskar eftir stuðningi í 3. sæti í prófkjörinu. Karvel er 37 ára gamall og hefur lokið BS námi í búvísindum frá Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hann er kvæntur Lindu Björk Pálsdóttur fjármálastjóra Borgarbyggðar og saman eiga þau tvö börn. Karvel hefur komið að ýmsum félagsmálum fyrir flokk sinn og er m.a. formaður Sjálfstæðisfélags Borgarfjarðarsýslu.
“Ég býð mig fram af því að mig langar að koma að því uppbyggingarstarfi sem framundan er í íslensku samfélagi. Ég tel nauðsynlegt að einstaklingar sem hafa beina tengingu við atvinnulífið, og hafa upplifað sjálfir hversu mikilvægt það er að fyrirtækjum sé búinn eðlilegur rekstrargrundvöllur, láti til sín taka í þeim verkefnum sem framundan eru. Ég held að allir geti verið sammála um að nú sé nóg komið af samrunahagnaði, útrás og skuldsettum yfirtökum, nú er kominn tími til að bretta upp ermar og skapa einhver raunveruleg verðmæti,” segir Karvel meðal annars í fréttatilkynningu um væntanlegt framboð sitt.