13. febrúar. 2009 03:05
“Nei, nei. Okkur er ekki kalt,” sögðu guttarnir sem voru á skautum á engjunum fyrir neðan Hvanneyri, skammt frá Hvítá, nú fyrir skömmu. Þrátt fyrir 13 stiga frost þennan dag hvikuðu þeir hvergi og sýndu góða takta á skautunum. Búið var að ryðja snjó af svellinu og töldu drengirnir það slétt og gott, enda hefur stríður straumur barna og fullorðinna legið þangað í stillunni undanfarna daga. Ekki spillti útsýnið fyrir en Borgarfjörðurinn hefur skartað sínu fegursta það sem af er þessu ári.
Nú hefur veður breyst og farið að hlána. Þá verður fljótt varasamt að fara á skauta á þessum slóðum sem og annarsstaðar á tjörnum, lækjum, vötnum og ám.