17. febrúar. 2009 07:38
Hinn næstum íslenski kór Staka mun halda tónleika í Reykholtskirkju í Borgarfirði sunnudaginn 22. febrúar klukkan 16.00. Staka er ungur kammerkór sem starfar í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir ungan aldur hefur kórinn sungið víða og fengið mikið lof fyrir. Meðlimir Stöku hafa flestir einhverja tónlistarmenntun og kórreynslu sér að baki. Staka hefur það að markmiði að kynna íslenska tónlist erlendis, en á tónleikunum í Reykholti mun kórinn snúa blaðinu við og flytja einvörðungu danska kórtónlist. Á efnisskránni eru verk eftir Niels W. Gade, Carl Nielsen, Per Nørgård, Vagn Holmboe, Jørgen Jersild, Bent Sørensen og fleiri. Stjórnandi Stöku er tónskáldið Stefán Arason. Aðgangseyrir á tónleikana er 1.500 kr.