16. febrúar. 2009 03:59
Forusta Frjálslynda flokksins hefur ákveðið að landsþing flokksins fari fram í Stykkishólmi dagana 13. -14. mars næstkomandi. Þar til nýverið var helmingur þingflokksins úr Norðvesturkjördæmi og 2/3 eftir að Jón Magnússon sagði sig úr flokknum fyrir skömmu. Því mætti segja að staðarval fundarins sé framúrskarandi og eðlilegt í ljósi þess að þar er aðstaða til ráðstefnuhalds mjög góð. Tvær konur innan Frjálslynda flokksins eru þó allt annað en ánægðar með staðarvalið og finnst greinilega að Stykkishólmur sé ekki boðlegur til þinghaldsins. Þetta eru þær Guðrún María Óskarsdóttir og Ásgerður Jóna Flosadóttir sem báðar hafa boðið sig fram til forystu í Frjálslynda flokknum. Þær gagnrýna forystu flokksins fyrir að hafa ákveðið að flýja "til fjalla" með þingið eftir að þær lýstu yfir framboði:
„Hvernig bregst forystan við nýju framboðunum? Jú, hún ákveður að flýja til fjalla með þingið. Það þarf ekki flokksmenn til að sjá að hér er verið að hindra endurnýjun á forystu flokksins. Landsþing í Stykkishólmi á kosningaári, þýðir minni aðsókn, og minni athygli. Allt virðist helst miðast við að engin endurnýjun verði og sömu menn haldi um valdataumana í flokknum, hvað sem það kostar“, segir í opnu bréfi til Guðjóns Arnar Kristjánssonar formanns Frjálslynda flokksins.
Í bréfinu segir jafnframt að ósk um póstkosningu meðal flokksmanna um kjör í embætti flokksins hafi fengið dræmar undirtektir en sú ósk var sett fram í ljósi þess að fjöldi félaga í flokknum hafði látið í ljósi andstöðu sína við staðsetningu þingsins. „Hvað veldur Guðjón Arnar að enginn í forystunni sér né hlustar á kall flokksmanna um breytingar? Þýðir eitthvað að safna undirskriftum Guðjón Arnar? Við viljum sjá Frjálslynda flokkinn opinn og lýðræðislegan þar sem hver getur nýtt sinn lýðræðislega rétt sem flokksmaður í stjórnmálaflokki. Guðjón Arnar, hver er þín sýn á hið nýja Ísland?“
Guðrún María situr í stjórn Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum, er formaður kjördæmisfélags Suðvesturkjördæmis og þá er hún ritari Frjálslynda flokksins í Hafnarfirði. Ásgerður Jóna á sæti í miðstjórn Frjálslynda flokksins og hún er jafnframt formaður Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum.