19. febrúar. 2009 01:04
Leikdeild Ungmennafélagsins Skallagríms frumsýnir leikritið "Á svið" eftir Rick Abbot annað kvöld, föstudaginn 20. febrúar, í félagsheimilinu Lyngbrekku á Mýrum. Þetta er gamanleikur í þremur þáttum. Leikritið fjallar um leikhóp sem er að setja upp leikritið "Hið fúla fólskumorð" og er óhætt að segja að margt fari úrskeiðis og gangi á ýmsu hjá leikhópi þessum. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson en hann er Borgfirðingum að góðu kunnur, hefur áður leikstýrt hjá Skallagrími og fleiri félögum í Borgarfirði og haldið leiklistarnámskeið. Frumsýning verksins verður klukkan 20:30. Næstu sýningar verða síðan á sunnudag, fimmtudag, föstudag og sunnudag og hefjast þær allar klukkan 20:30.