20. febrúar. 2009 09:47
Arnheiður Hjörleifsdóttir á Bjarteyjarsandi hefur gengið til liðs við Framsóknarflokkinn, segir hún í fréttatilkynningu. “Samhliða þeirri ákvörðun sækist ég eftir öðru sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Mér finnst mikilvægt að hlúa vel að grunngildum samfélagsins, vinna að jöfnuði, réttlæti, sjálfbærri þróun og virðingu fyrir manngildum og náttúruauðlindum. Ástand mála í þjóðfélaginu á síðustu vikum og mánuðum kemur hart niður á mörgum og er ærið verkefni framundan. En í þessu ástandi felast líka tækifæri. Kannski felst eitt stærsta tækifærið í vakningu fólksins á stjórnmálum og þeim möguleika á að hafa áhrif á framtíð okkar hér í þessu landi. Ég vil taka virkan þátt í þessari vakningu og leggja fram krafta mína til þess að skapa betra Ísland fyrir okkur öll og komandi kynslóðir,” segir Arnheiður.
Hún er 33ja ára, uppalin á Akranesi en bý nú ásamt fjölskyldu minni á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit. “Þangað flutti ég ásamt eiginmanni mínum að loknu námi sem ég stundaði bæði í Reykjavík og Kanada. Ég er með BS gráðu í landfræði og MS gráðu í umhverfisfræðum. Þá hef ég einnig lokið kennslufræði til kennsluréttinda. Á Bjarteyjarsandi rekum við sauðfjárbú en höfum auk þess byggt upp ferðaþjónustu með áherslu á menningu og umhverfi. Við höfum skapað okkur sérstöðu með því að opna bæinn okkar fyrir börnum á öllum aldri, þar sem áhersla er lögð á fræðslu, upplifun og virðingu.
Síðan 2003 hef ég gegnt hlutastarfi hjá ráðgjafafyrirtækinu UMÍS í Borgarnesi. Þar hef ég sinnt fjölbreyttum verkefnum, staðbundnum og á landsvísu, m.a. ráðgjöf til sveitarfélaga vegna Staðardagskrárvinnu.
Frá árinu 2006 hef ég setið í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar. Það hefur verið lærdómsríkt að starfa í sveitarstjórnarmálum og mér hafa verið falin mörg mikilvæg verkefni á þeim vettvangi.
Nýjum tímum fylgir ný von. Óraunhæft er að óska eftir töfralausnum til að leysa öll þau verkefni sem framundan eru. En hvert ferðalag á sér upphaf og það er mikilvægt að stíga fyrsta skrefið. Með þessari yfirlýsingu er ég að því. Ég er reiðubúin að leggja fram fórnfúst og metnaðarfullt starf á þessum nýju tímum sem Framsóknarflokkurinn boðar,” segir að lokum í tilkynningu frá Arnheiði.