05. maí. 2009 02:07
Fyrir skömmu var haldinn á Hvanneyri fyrsti fundur spendýrafræðinga á Íslandi. Á fundinn mættu vísindamenn sem vinna með villt íslensk spendýr á láði og legi; hvali, seli, hreindýr, ref, mink og mýs. Einnig þeir spendýrafræðingar sem vinna sérstaklega með atferli íslensku húsdýranna; hrossa, sauðfjár og nautgripa. Markmið fundarins var að kynna vísindamennina, sem vinna með íslensk spendýr og fá yfirsýn yfir þær rannsóknir sem þeir eru að fást við. Á vef LbhÍ segir að fundurinn hafi verið vel sóttur af fræðingum af öllu landinu. Í lok fundarins var mynduð undirbúningsstjórn að stofnun Félags spendýrafræðinga á Íslandi, en slík félög er að finna víða um heim. Fyrir hönd LbhÍ sátu fundinn Anna Guðrún Þórhallsdóttir prófessor og þrír meistaranemar hennar sem unnið hafa eða vinna við verkefni á sviði atferlisfræði.