08. maí. 2009 02:14
Nýlega urðu mannaskipti í stjórnun Háskólaseturs Snæfellsness. Tómas G. Gunnarsson flutti sig um set á Hvolsvöll og stýrir nú Háskólasetri Suðurlands. Það kom í hlut Jóns Einars Jónssonar að taka við stöðu forstöðumanns Háskólaseturs Snæfellsness, en hann mun samt áfram sinna rannsóknum á æðarfugli við háskólasetrið. Aðrir starfsmenn Háskólaseturs Snæfellsness eru sem fyrr Una Kristín Pétursdóttir og Freydís Vigfúsdóttir. Freydís hefur verið í Bretlandi við nám í vetur en er væntanleg til að fylgjast með kríum og öðrum sjófuglum á Snæfellsnesi. Una hefur talið álftir í vetur auk þess að taka þátt í rannsóknarvinnu og sinna ýmsum sérverkefnum.
Þá er fleira á döfinni hjá háskólasetrinu varðandi rannsóknir á komandi sumri. Þórður Örn Kristjánsson hóf doktorsnám í varpvistfræði æðarfugls í janúar, en hann lauk mastersnámi um svipað efni frá HÍ 2008. Rannsóknir hans munu fara fram í Rifi og í Hvallátrum á Breiðafirði. Hákon Ásgeirsson nemi við LbhÍ mun vinna BS verkefni í Ritu á Snæfellsnesi í sumar í samstarfi við Freydísi og Jón Einar. Verður verkefnið unnið í samstarfi við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, þar sem Hákon starfar.
Þá er kanadískur BS nemi, Christine Chicoine, sem starfa mun við Háskólasetur Snæfellsness í maí og júní og taka átt í rannsóknarvinnu með starfsmönnum þess, m.a. á æðarfugli. Christine verður þátttakandi í nýhöfnu rannsóknarsamstarfi Háskólasetursins við Magella Guillemette, sem er prófessor við Rimouski Háskóla í Quebec í Kanada. Guillemette er einn af fremstu sérfræðingum heims í atferli og lífeðlisfræði æðarfugls og hefur rannsakað tegundina áður í Danmörku og Norður Ameríku. Það verða því fimm manns á ferli við fuglarannsóknir á vegum Háskólaseturs Snæfellsness í sumar.