18. maí. 2009 12:03
Margæsir hafa verið í hundraða tali á Akranesi síðustu daga. Þær halda sig mikið við Blautós og Innsta-Vog og taka þar flugið með tilheyrandi gargi. Margæsir koma við á Íslandi á leið sinni til NA-Kanada og Grænlands en þær verpa ekki hér á landi. Þær fljúga í ótrúlega hæð því þegar þær fara til Kanada og yfir Grænlandsjökul getur flughæðin orðið allt að 2.400 metrar yfir sjávarmáli. Leið þeirra á varpstöðvarnar er um 3.000 kílómetra löng og því kærkomið að slappa aðeins af á Íslandi. Þær gera sig líka heimakomnar á Álftanesinu í nágrenni forsetans. Margæsir flytja með sér orkuforða frá Íslandi til varpstöðva. Sú orka nýtist þeim við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Ísland og milt loftslag gera skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins. Margæsirnar eru alfriðaðar hér á landi.