18. maí. 2009 03:04
Eins og fram hefur komið í fréttum hafa sveitarfélögin Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit ákveðið að segja upp samningi um akstur Strætó milli Borgarness og Reykjavíkur. Þetta mun þó ekki þýða að ferðir leggist strax af. “Strætó mun aka milli Borgarness og Reykjavíkur í sumar samkvæmt áætlun. Uppsögn samnings um aksturinn mun því ekki taka gildi fyrr en í ágústlok,” sagði Páll S Brynjarsson sveitarstjóri í Borgarbyggð í samtali við Skessuhorn. Hann segir að ekki liggi ennþá fyrir með hvaða hætti akstri milli staðanna verður háttað eftir það. “Það verða þrjár ferðir á dag að lágmarki milli Borgarness og Reykjavíkur eftir ágústlok. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvernig þeim akstri verður háttað né hver taki hann að sér. Það mun skýrast í júní,” sagði Páll.