03. júní. 2009 04:06
"Það var alltaf mikið fjör hér á sjómannadaginn en svo varð til kynslóðabil í sjómannastéttinni. Það vantar 30 til 35 ára stráka í stéttina, þá sem fæddir eru frá 1974 til 1980. Þetta er aldurinn sem ætti að standa fyrir hátíðarhöldum sjómannadagsins. Útgerðirnar hér eiga hins vegar hrós skilið fyrir að styðja vel við bakið á okkur og við gerum okkar besta til að hafa þetta skemmtilegt með sem minnstum tilkostnaði. Það þarf ekki alltaf Stuðmenn eða Nýdanska til að hafa stuð," segir Jón Frímann Eiríksson sjómaður í Grundarfirði í viðtali sem birtist við hann í sjómanndagsblaði Skessuhorns sem kemur út í dag. Jón Frímann er nú að undirbúa hátíðarhöldin í Grundarfirði. "Þetta verður með hefðbundnu sniði hjá okkur nema við eigum ekki kappróðrarbáta. Þeir fuku, þótt ótrúlegt megi virðast, þá gerði sunnan rok í Grundarfirði og bátarnir tókust á loft og eyðilögðust. Það er draumurinn að eignast kappróðrarbáta en þeir eru dýrir,” segir kappinn af Skaganum sem nú býr í Grundarfirði.