05. júní. 2009 08:03
 |
Á Langjökli þangað sem m.a. verður boðið í ferð |
Björgunarsveitirnar í Borgarfirði; Brák, Heiðar og Ok, verða með glæsilega dagskrá nú um Sjómannadagshelgina. Í fyrrahaust kviknaði þessi hugmynd hjá björgunarsveitunum að vera með veglega hátíð í Borgarfirði eina helgi í sumar. "Það sem við viljum helst gera með þessu er að bjóða fólki upp á dagskrá sem kostar sem minnst fyrir samborgarana í því ástandi sem er í þjóðfélaginu. Og það er að sjálfsögðu helst með því að vera úti við og njóta nátturunnar og þess sem hún hefur upp á að bjóða. En það er nú stundum svo að ekki geta allir komist þangað sem þá langar nema með hjálp aðila sem þekkja til eða hafa til þess farartæki, sem dæmi uppá Langjökul, eða í Surtshelli, eða fara í gönguferðir í héraðinu sem eru greiðfærar en ekki allir þekkja," segir Guðrún Kristjánsdóttir talskona björgunarsveitarfólks í samtali við Skessuhorn.
"Þess vegna viljum við bjóða uppá þessa möguleika fyrir fólk í héraðinu og með þessu erum við líka að þakka ykkur Borgfirðingar fyrir allan þann stuðning og skilning sem þið hafið sýnst okkur björgunarsveitarfólki í gegnum árin. Í allri dagskránni er fólk úr björgunarsveitunum í héraðinu til leiðsagnar og aðstoðar og er það von okkar að þið sjáið ykkur fært að vera með okkur og njóta þessara samverustunda um helgina. Og eins og þið getið lesið á auglýsingunni í Skessuhorni þá er eitthvað við allra hæfi á Útifjöri 2009 í Borgarfirði," segir Guðrún.
Sjá má auglýsingu um dagskrá Útifjörs 2009 í Skessuhorni vikunnar.