Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. júní. 2009 04:03

Fjölbreytileiki í tónlist og staðarvali meðal sérkenna

Jónína Erna Arnardóttir

IsNord tónlistarhátíðin verður haldin dagana 13. til 16. júní næstkomandi en þetta er í fimmta skipti sem Jónína Erna Arnardóttir, píanóleikari og tónlistarkennari í Borgarnesi gengst fyrir þessari rammborgfirsku tónlistarhátíð. Er hún bæði listrænn stjórnandi og ábyrgðarmaður hátíðarinnar. Eftir því sem næst verður komist eru IsNord hátíðin og tónlistarhátíð á Akureyri einu hátíðirnar sem stjórnað er af fólki utan höfuðborgarsvæðisins. Til að forvitnast lítillega um hvað framundan er var Jónína Erna sótt heim fyrir skömmu.

Jónína Erna segist alltaf reyna að hafa sem mest af Borgfirðingum með sér í hátíðinni, ýmist sem tónskáld, texta- eða lagahöfunda eða sem flytjendur. “Því er ekki að neita að það er dálítið erfitt að áætla eða sjá fyrir um aðsókn. Hún getur farið eftir svo mörgu, kannski frjókorni í lofti, hver veit? Ég reyni hins vegar að hafa fjölbreytta dagskrá; klassík jafnt sem baðstofukvöld, og brydda upp á einhverjum nýjungum á hverju ári. Líklega mætti segja að það sé einmitt sérstaða IsNord hátíðarinnar.” Því er ekki að neita að þegar dagskrá liðinna IsNord hátíða er skoðað er bæði hugmyndaauðgi í vali á tónlistarfólki ekki síður en tónleikastöðum allsráðandi. Nægir þar að nefna Grábrók, Surtshelli og tónleika þar sem heil ætt er fengin til tónleikahaldsins eins og í fyrra þegar Húsfellingar troðfylltu Reykholtskirkju.

 

“Í ár reyndi ég að halda kostnaði í skefjun en tel samt að það muni alls ekki bitna á gæðum eða fjölbreytileika. Dagskráin mun samanstanda af þremur viðburðum, þeim fyrsta laugardaginn 13. júní þar sem Guðrún Ingimarsdóttir sópransöngkona frá Hvanneyri mun flytja íslensk og norræn sönglög. Tónleikarnir verða í Borgarneskirkju og hefjast klukkan 16. Ég mun sjálf spila undir hjá henni,” segir Jónína Erna. Guðrún er búsett í Þýskalandi en hefur komið fram víða um Evrópu. Þrátt fyrir að búa í sitt hvoru landinu hafa þær Guðrún og Jónína Erna starfað talsvert saman.

 

Englakór og Baðstofukvöld með Böðvari

Sunnudaginn 14. júní verða síðan tónleikar í Paradísarlaut í Norðurárdal klukkan 16.  Nefnast tónleikarnir “Englakór í Paradís,” en þar mun Kársneskórinn syngja undir berum himni undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Eigi einhverjir íbúar svæðisins eftir að koma í hina einstöku Paradísarlaut, í nágrenni fossins Glanna, er sérstök ástæða til að hvetja þá til að taka síðdegið þennan sunnudag frá fyrir slíka heimsókn. Hraunið og allt umhverfið í Norðurárdalnum skartar einmitt sínu fegursta á þessum árstíma.

 

“Síðasti dagskrárliðurinn og alls ekki sá sísti, verður Baðstofukvöld með Böðvari Guðmundssyni frá Kirkjubóli. Það verður í félagsheimilinu Logalandi í Reykholtsdal að kvöldi þriðjudagsins 16. júní og hefst klukkan 21. Þetta verður dagskrá til heiðurs Böðvari sjötugum. Hann hefur samið ógrynni af textum og lögum en einnig hefur hann verið afkastamikill þýðandi. Það má segja um Böðvar að hann hefur verið einstaklega fjölhæfur höfundur, en verk hans spanna allt frá eldheitum baráttusöngvum upp í óperutexta og trúarlega texta við tónlist J.S. Bachs og verður flestum hliðum hans sem höfundar gerð skil á baðstofukvöldinu. Þar munu, auk Böðvars sjálfs, koma fram Kristín Ólafsdóttir, Diddi fiðla, Kammerkór Vesturlands, barnakór úr heimasveit hans Hvítársíðunni, Gunnar Ringsted og ég,” segir Jónína Erna að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is