Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. júní. 2009 07:30

Sjómannadagshátíðarhöldin á Vesturlandi

Fjölbreytt dagskrá er víða á Vesturlandi vegna sjómannadagsins sem er á morgun, sunnudag. Víða er þó dagskráin aðallega í dag. Hér að neðan er stutt samantekt um dagskrá helgarinnar á útgerðarstöðum landshlutans: 

 

Hellisandur og Rif

Hátíðarhöld vegna sjómannadagsins á Hellissandi og Rifi hófust í gær þegar félagar úr ungliðadeildinni Dreka gegngu í hús og seldu blöð og merki sjómannadagsins. Í dag, laugardag, hefst skemmtidagskrá í Rifi eftir hádegið, með kappróðri, koddaslag og fleiri leikjum. Að því loknu verður farið í skemmtisiglingu ef veður leyfir. Á sunnudag hefjast hátíðarhöldin með sjómannamessu á Ingjaldshóli. Eftir hádegið verður hátíðardagskrá í Sjómannagarðinum á Hellissandi. Að henni lokinni verður hið árlega kaffi hjá slysavarnardeildinni Helgu Bárðardóttur. Sjómannahóf verður síðan um kvöldið, þar sem boðið verður upp á hlaðborð að hætti Rúnars Gunnarssonar og frúar. Veislustjóri verður Jóhannes Kristjánsson eftirherma og síðan mun hljómsveitin Góðir landsmenn leika fyrir dansi.

Grundarfjörður

Grundfirðingar hófu hátíðarhöld sjómannadagsins með golfmóti Guðmundar Runólfssonar hf. síðdegis í gær. Í dag, laugardag, byrja hátíðarhöldin í hádeginu með skemmtisiglingu í boði útgerða bæjarins, með bátunum Ársæli og Hring. Eftir hádegið er síðan hátíðar- og skemmtidagskrá á bryggjunni við húsnæði Djúpakletts. Þar fer fram keppni í ýmsum greinum tengdum sjómennsku, svo sem netabætingu, pokahnúti, splæsingu og hver er sneggstur í flotbúning. Öllum er frjáls þátttaka og eru vegleg verðlaun fyrir hverja grein, en einnig fer fram sérstök stigakeppni í þessum þrautum milli áhafna skipanna. Samkaup bjóða upp á grillaðar pylsur og einnig mætir Lúðrasveit Grundarfjarðar á svæðið. Félagar Björgunarsveitarinnar Klakks verða á staðnum og nýr bátur sveitarinnar verður til sýnis, sem og boðið upp á kassaklifur fyrir krakkana. 

Klukkan fjögur verður síðan brugðið á leik á íþróttavellinum þar sem fram fer landsleikur í í knattspyrnu milli Íslands og Póllands. Íslenska liðið er skipað úrvali af skipum bæjarins undir stjórn Vignis Más Runólfssonar landsliðsþjálfara. Lið Póllands er hins vegar skipað leikmönnum sem vinna hjá hinum ýmsu fyrirtækjum í sjávarútvegi í Grundarfirði. Landsliðsþjálfari Pólverja er Semek Andri Þórðarson.

Hátíðarhöldum sjómannadagsins í Grundarfirði lýkur síðan á sunnudag með sjómannamessu og heiðrun aldraðra sjómanna í Grundarfjarðarkirkju. Séra Aðalsteinn Þorvaldsson messar. Kvenfélagið verður síðan með kaffisölu í Samkomuhúsinu kl. 15-17.

 

Akranes

Hátíð hafsins er haldin í dag, laugardag, á Akranesi. Dagurinn byrjar með dorgveiði á Sementsbryggjunni klukkan tíu. Skömmu síðar er á dagskrá hópsigling fiskibáta og skemmtibáta, þar sem tekið verður á móti farþegum eins og pláss leyfir. Í hádeginu verður grillað við höfnina og börnin leika sér í kassaklifri. Klukkan eitt byrjar skemmtidagskráin á hafnarsvæðinu. Þar verður farið í ýmsa leiki, ætlaða bæði börnum og fullorðnum, svo sem hver á lengsta stökkið af reiðhjóli fram af Akraborgarrampinum. Ýmis leiktæki fyrir börn verða til staðar, en einnig farið í leiki tengda sjómannadeginum, eins og reiptog, koddaslag og ísjakahlaup. Klukkan tvö hefst kaffisala slysavarnarkvenna og einnig mætir þyrla Landhelgisgæslunnar á svæðið. Dagskrá í tilefni sjómannadagsins, Hátíð hafsins, lýkur um klukkan 16 á laugardag. Björgunarfélag Akraness hefur umsjón með skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar í samstarfi við Akranesstofu.

 

Stykkishólmur

Hátíðarhöldin fara eingöngu fram á sjómannadag, á sunnudeginum, í Hólminum. Þau byrja með því að fánar verða dregnir að húni klukkan átta um morguninn. Klukkan tíu verður blómsveigur lagður við minningarreit drukknaðra sjómanna í kirkjugarðinum. Skömmu síðar verður safnast saman við minnisvarða látinna sjómanna, lagður þar blómsveigur og síðan gengið í skrúðgöngu til kirkju þar sem sjómannamessa hefst klukkan 11. Í messunni verður aldraður sjómaður heiðraður.

Eftir hádegið verða hátíðarhöld á hafnarsvæðinu og mun Lúðrasveit Stykkishólms leika á meðan á þeim stendur. Farið verður í ýmsa leiki og um klukkan þrjú byrjar síðan kaffisala björgunarsveitarinnar Berserkja um borð í Baldri. Klukkan fjögur verður farið í siglingu með Baldri í boði Sæferða. Í tilefni dagsins verður Hótel Stykkishólmur með sjómannadagstilboð á matseðli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is