12. júní. 2009 11:37
Fiskafli íslenskra skipa nú í maí var tæpum 36% minni en hann var í sama mánuði í fyrra, eða alls 63.738 tonn samanborið við 99.603 tonn árið 2008. Í samantekt Fiskistofu kemur fram að samdráttur varð bæði í botnfisksafla og uppsjávarafla. Botnfisksaflinn í sl. maímánuði var 41.022 tonn samanborið við 46.875 tonn í maí í fyrra, eða 12,5% minni. Þorskaflinn í maí síðastliðnum var 14.828 tonn en var 15.657 í maí 2008, eða 5,3% minnkun. Afli flestra annarra botnfiskstegunda var minni en í fyrra. Ýsuaflinn var til dæmis 8.353 tonn í maí 2008 en 7.949 tonn í síðasta mánuði. Talsvert minni afli fékkst einnig af ufsa, karfategundum, grálúðu og öðrum flatfisktegundum en aukning varð í afla í skötusel, löngu og þykkvalúru.
Uppsjávaraflinn í maí 2009 var 21.362 tonn en var 50.543 tonn á sama tíma í fyrra. Þetta skýrist einkum af því að kolmunnaafli varð tæp 49 þúsund tonn í maí í fyrra en u.þ.b. 10 þúsund tonn í maí á yfirstandandi ári. Síldaraflinn stórjókst í maímánuði sl. frá því sem fékkst í þeim mánuði í fyrra. 11.677 tonnum var landað af norsk-íslenskri síld og 98 tonn af sumargotssíld í maí í ár en 1.608 tonnum af norsk-íslenskri síld var landað í maí í fyrra. Talsverð aukning var í rækjuafla en alls var landað 918 tonnum af rækju í maímánuði sl. samanborið við 546 tonn á sama tíma í fyrra. Hér er aðallega um úthafsrækju að ræða. Humaraflinn varð nokkru minni en í sama mánuði í fyrra.