15. júní. 2009 09:03
 |
Framhlið þjónustuhússins sem Skipavík smíðaði. |
Um síðustu helgi var nýja þjónustuhúsið við tjaldstæðin í Stykkishólmi tekið í notkun og var þá þegar fjölmenni sem nýtti sér aðstöðuna. Bæjaryfirvöld á staðnum hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að gera tjaldsvæðið í Stykkishólmi að fimm stjörnu áningarstað og er þeim framkvæmdum að ljúka. Allur aðbúnaður er eins og best þekkist í nýja húsinu og á tjaldstæðunum. Fjölgað hefur verið rafmagnstenglum fyrir húsbíla, felli- og hjólhýsi og að auki hefur verið bætt við bekkjum og leiktækjum. Fyrir þá sem vilja vera tengdir við umheiminn, þá er þráðlaust netsamband á svæðinu.
Tjaldsvæðið í Stykkishólmi er í göngufæri við alla þjónustu sem fólk á ferðalagi þarfnast, til dæmis sundlaugina, veitingastaði, bakarí, bensínstöð, Bónus, vínbúð, söfn og snyrtistofur svo fátt eitt sé nefnt. Að auki er einn glæsilegasti níu holu golfvöllur landsins staðsettur við tjaldsvæðið.