15. júní. 2009 08:02
“Endurreisn íslensks samfélags er brýnni en aðildarviðræður við Evrópusambandið,” segir í upphafi ályktunar sem Félag Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði hefur sent frá sér. Samkvæmt því er allt annað en samhljóm að finna í áherslum ríkisstjórnarflokkanna nú um stundir. Félag skagfirskra VG sinna minnir á samþykktir flokksins og yfirlýsingar fyrir nýliðnar alþingiskosningar þar sem alfarið er hafnað Evrópusambandsaðild og ítrekað að hagsmunum Íslendinga sé best borgið utan sambandsins. “VG er eini flokkurinn sem á sæti á Alþingi sem hefur frá upphafi talað skýrt í þessum efnum. Því skorar félagið á þingflokk VG að beita sér gegn því að frekari skref verði stigin í átt til Evrópusambandsaðildar og hafna þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður. Á þeim mánuðum sem liðnir eru frá hruni íslensks efnahagslífs hafa alþingismenn og stjórnvöld nú þegar sóað of miklum tíma og orku í umræðu um Evrópusambandsaðild og hefur það komið niður á öðrum og brýnni verkefnum til samfélagslegrar endurreisnar.