15. júní. 2009 12:03
Hið árlega kvennahlaup ÍSÍ verður á laugardaginn og er þetta í 20. skipti sem það fer fram. Hlaupið er útbreiddasti og fjölmennasti íþróttaviðburður sem haldinn er á Íslandi ár hvert. Um 15 til 20 þúsund konur taka þátt og hlaupa á um 84 stöðum hérlendis og á 16 stöðum erlendis.
Í ár er yfirskrift kvennahlaupsins; “Tökum þátt – heilsunnar vegna.” Það er unnið í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands og er athygli vakin á forvörnum í heilbrigðu líferni og konur minntar á mikilvægi þess að fara reglulega í skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.