19. júní. 2009 05:45
 |
Hvalirnir komnir að landi |
Hvalveiðiskipið Hvalur 9 kom með fyrstu tvær langreyðar þessa veiðitímabils að landi í Hvalstöðinni í Hvalfirði klukkan 4 í nótt. Þetta voru tvær kýr sem veiddust suður af Garðskaga. Við mælingu reyndist sú sem tekin var upp á skurðarplanið fyrst vera 62 fet að lengd. Strax og starfsfólk Hafró var búið að taka sýni hófu hvalskurðarmenn að flensa fyrri hvalinn. Gert var ráð fyrir að búið væri að skera þá báða um klukkan 8 í dag. Nokkrir vanir skurðarmenn voru að störfum í Hvalstöðinni en talsverður fjöldi nýliða einnig. Kristján Loftsson sagði í samtali við Skessuhorn í nótt að hluti afurðanna yrði frystur í Hvalstöðinni en hluti á Akranesi og eitthvað færi auk þess til Hafnarfjarðar. Hann gerir ráð fyrir að um 150 manns fái vinnu í landi við hvalavinnsluna og þar að auki um 30 sem verða í áhöfnum Hvals 9 og Hvals 8.