21. júní. 2009 08:32
ÍA og KA mættust í dag í á Akranesi í leik í fyrstu deildinni. Aðstæður voru góðar og fyrirfram var búist við miklum baráttuleik. Leikurinn hófst af miklum krafti og strax á 6. mínútu fékk Helgi Pétur Magnússon dauðafæri á markteig gestanna frá Akureyri en hann náði að skalla knöttinn framhjá í upplögðu marktækifæri. KA var ekki lengi að refsa fyrir slíkt og mínútu síðar átti Dean Martin góða sendingu inn í vítateig frá hægri kanti yfir á Arnar Már Guðjónsson, sem skoraði með góðum skalla fram hjá Trausta Sigurbjörnssyni í marki ÍA. Eftir markið fóru Skagamenn að sækja og reyna að jafna metin. Fátt markvert gerðist þó fyrr en á 20. mínútu þegar Andri Júlíusson fékk knöttinn inni í vítateig KA og átti skot sem fór í varnarmann KA. Arnar Gunnlaugsson náði frákastinu, lék á einn varnarmann gestanna og skoraði léttilega framhjá Sandor Matus í marki KA.
Jafntefli var í hálfleik og var leikurinn í jafnvægi eftir sterka byrjun KA í síðari hálfleik en hvorugt liðið skapaði sér mikil tækifæri eftir það. ÍA fékk samt sitt langbesta færi í seinni hálfleik á 70. mínútu þegar Jón Vilhelm Ákason átti frábæra rispu upp hægri vænginn og sendi knöttinn inn í vítateig gestanna þar sem Ólafur Valur Valdimarsson hefði átt að skora af öryggi en Sandor Matus varði af stakri snilld skalla hans.
Fátt markvert gerðist eftir þetta sem reyndi mikið á varnir beggja liða. Bæði lið sköpuðu sér nokkur hálffæri en markverðirnir þurftu frekar lítið að hafa fyrir því. Dean Martin hefði þó getað stolið sigrinum fyrir KA í uppbótartíma þegar hann átti gott skot í þverslá ÍA eftir gott upphlaup.
Leikurinn fjaraði svo út eftir þetta og góður dómari leiksins, Gunnar Jarl Jónsson, flautaði til leiksloka þannig að bæði lið þurftu að sætta sig við jafntefli 1-1. Í heild verða þetta að teljast sanngjörn úrslit og miðað við spilamennsku beggja liða mega þau heldur betur bæta sig ef eitthvað annað en miðjubarátta í deildinni á að bíða þeirra.
Lýsing: fotbolti.net