25. júní. 2009 02:16
 |
Þessir ferðamenn komu landveginn í Grundarfjörð. |
Skemmtiferðaskipsins Clipper Adventure, sem kom til Grundarfjarðar í gærmorgun, var beðið með mikilli eftirvæntingu af þeim sem standa að handverksmarkaði sem komið hefur verið upp í Grundarfirði til að laða að farþega þeirra skemmtiferðaskipa sem væntanleg eru í sumar. Að þessu sinni breyttist þó eftirvæntingin í mikil vonbrigði þegar rúturnar sem komu um morguninn og sóttu ferðamennina, fóru með þá rakleiðis í bíltúr um sveitirnar í kring, komu aftur og skiluðu ferðalöngunum beint í skip aftur sem leysti síðan landfestar og sigldi á brott. Þykir það furðu sæta að ekki einn einasti farþegi sem kom með skipinu hafi gengið um Grundarfjörð. Hvert var farið með ferðalangana veit enginn, nema bílstjórar langferðabifreiðanna. Mikil vonbrigði eru í hópi ferðaþjónustaðila í Grundarfirði eftir komu þessa skips.