01. júlí. 2009 11:50
Það má muna fífil sinn fegurri húsið á Hóli í Hörðudal þar sem það kúrir lágreist á hólnum þar sem vegurinn endar. Blaðamanni er hugsað til þess hvernig það sé fyrir gamlan mann að búa þarna þegar stríð vetrarveðrin geysa. Það er eiginlega fyrsta spurningin sem Mundi á Hóli, Guðmundur Guðbrandsson, svarar blaðamanni eftir að þeir hafa heilsast. „Hann getur orðið ansi hvass hérna í sunnan- og suðaustan átt. Annars er yfirleitt ekkert kalt hjá mér. Í frosti og stillum er bara hlýtt,“ segir Mundi um leið og hann býður komumanni í bæinn.
Þetta var fimmtudagsmorguninn 25. júní, á 94. afmælisdegi bóndans aldraða í Hörðudalnum, sem ekkert er á því að fara á elliheimili og hlakkar enn til hvers dags sem í hönd fer. Sérstaklega núna á þessum tíma þegar hver hestahópurinn af öðrum kemur við á Hóli, en bærinn er í alfaraleið fólks í hestaferðum. Þarna fór um hópur hestafólks daginn áður, mest þýskar konur í ferðahópi Eggerts frá Bjargshóli í Húnaþingi, sem gjarnan kemur þarna við með sína hópa. Mundi átti von á hópum næstu daga, til að mynda Skagfirðingum og Húnvetningum á leið á Fjórðungsmótið á Kaldármelum sem hófst í dag. Sjá nánar í viðtali við Guðmund í Skessuhorni sem kemur út í dag.