01. júlí. 2009 02:00
Þegar farið var að skyggnast í reikninga sveitarfélagsins Dalabyggðar fyrir árið 2008 kom í ljós reikningur vegna lagningar nýrrar vatnsveitu frá Hjarðarholti að Goddastöðum, sem framkvæmd var á árinu á undan. Þessi kostnaður við veitulögnina var greiddur án heimildar sveitarstjórnar og byggðarráðs, enda hefur sveitarsjóður Dalabyggðar ekki staðið straum að veitulögnum í dreifbýli.
Um málið var bókað á síðasta fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar og segja fulltrúar í sveitarstjórninni greinilegt að Gunnólfur Lárusson fyrrverandi sveitarstjóri hafi tekið það upp á sitt eindæmi að sveitarfélagið greiddi þennan reikning, sem var um 350 þúsund krónur.
Sveitarstjórn Dalabyggðar ætlar ekki að hafa uppi málarekstur, heldur lítur á þetta sem mistök af hálfu sveitarfélagsins. Í bókuninni á sveitarstjórnarfundinum segir m.a.: „Kostnaður vegna framkvæmdarinnar liggur ekki fyrir þar sem aðeins þessi eini reikningur er merktur framkvæmdinni. Sveitarstjórn lítur svo á að hér sé ekki um fordæmisgefandi framgang að ræða og að ekki verði ráðist í hliðstæða framkvæmd nema að undangegnu ítarlegu mati og samþykki sveitarstjórnar.“ Ekki náðist í Gunnólf Lárusson fyrrverandi sveitarstjóra Dalabyggðar til að inna hann frekar eftir aðkomu hans að málinu