01. júlí. 2009 03:45
Það er ekki mikil hefð fyrir sorpflokkun á Íslandi. Margir halda enn að til einskis sé að flokka sorp því það fari á endanum allt í sama hauginn. Því fer hins vegar víðs fjarri. Möguleikarnir eru vissulega fyrir hendi og á flestum þéttbýlisstöðum eru til staðar gámar til lágmarksflokkunar. Auk þess getur fólk fengið sérstaka endurvinnslutunnu heim til sín og sparað þannig ferðir á gámasvæðin. Einnig er hægt að fá keypta sérstaka kassa til jarðgerðar. Gámaþjónustan er stærsta fyrirtækið á landinu í sorphirðu, flokkun og úrvinnslu sorps.
Fyrirtækið er með dótturfyrirtæki í öllum landshlutum. Gámaþjónusta Vesturlands, dótturfyrirtæki Gámaþjónustunnar, tekur jafnt við óflokkuðu sorpi sem flokkuðu og markmiðið er að minnka þá sóun sem því fylgir að urða endurvinnanlegan úrgang. Ítarlegt viðtal er við Hreiðar Örn Gestsson rekstrarstjóra Gámaþjónustu Vesturlands í Skessuhorni, sem kom út í dag.