06. júlí. 2009 10:24
Nokkur tilboð hafa borist í eignir þrotabús Loftorku Borgarnesi ehf. Eiríkur Elís Þorláksson skiptastjóri þrotabúsins segist vera með ein sex til sjö tilboð í höndunum, ýmist í eignirnar í heild eða einstaka hluta þeirra. “Ég er nú að fara í gegnum þessi tilboð en þau eru bæði frá heimamönnum og öðrum. Þetta þarf svo að bera undir Íslandsbanka, sem er með veð í eignunum en vonandi ættu málin að skýrast undir lok vikunnar,” sagði Eiríkur.
Búið er að opna fyrir símsvörun á skrifstofu Loftorku í Borgarnesi og sala hafin á rörum, blautsteypu og fleiru. Búið er að ráða lágmarksmannskap til að sinna þessum verkefnum. Áformað er að þrotabú Loftorku ljúki við þau verk sem starfsmenn Loftorku voru að vinna við þegar fyrirtækið varð gjaldþrota.