06. júlí. 2009 02:21
Starfsfólk sjávarrannsóknarsetursins BioPol á Skagaströnd var við hrognkelsamerkingar í Breiðafirði 24.-26. júní síðastliðinn. Merkt voru um 730 hrognkelsi og þeim sleppt aftur en merkingarnar eru hluti af rannsóknarverkefni sem hófst árið 2008 en þá voru merkt 2.015 hrognkelsi á Húnaflóa og Skagafirði. Þá endurveiddust í Breiðafirði fjórar grásleppur, sem merktar höfðu verið við Gjögur á Ströndum 12-22 dögum áður. Í vor hafa merkingasvæði verið útvíkkuð frá Bakkaflóa að Breiðafirði. Rannsóknarfólk slóst að þessu sinni í för með Valdimar Kúld á Maríu SH-14 frá Stykkishólmi.
Halldór G. Ólafsson, framkvæmdastjóri BioPol, segir að með merkingunum fáist mikilvægar upplýsingar um farleiðir og hegðunarmynstur hrognkelsa. Hann segir mjög gott samstarf hafa verið við smábátasjómenn um allt land í tengslum við verkefnið og að þeir hafi verið duglegir að tilkynna um endurheimtur þegar merkt hrognkelsi veiðist aftur. “Upplýsingar um endurheimtur eru okkur ákaflega mikilvægar og því hvetjum við breiðfirska smábátasjómenn til að tilkynna um merktar grásleppur sem veiðast. Ég bið sjómenn í Breiðafirði að hafa samband jafnvel þótt þeir sleppi hrognkelsunum aftur. Annars erum við þegar farin að fá upplýsingar um veidd hrognkelsi eftir merkingarnar í Breiðafirði. Til dæmis veiddist merkt grásleppa þaðan í Hvalfirði um helgina,” segir Halldór G. Ólafsson.