07. júlí. 2009 09:51
Borgfirðingar tóku vel á móti ofurhlauparanum Gunnlaugi A. Júlíussyni þegar hann hljóp í gegnum héraðið í gær. Guðmundur Sigurðsson á Hvanneyri, ungmennaleiðtogi með meiru var einn þeirra og tók meðfylgjandi mynd þar sem Ingimundur Grétarsson hljóp með Gunnlaugi yfir Borgarfjarðarbrúna og upp í Norðurárdal. Fyrir ofan Borgarnes bættist í hópinn Unnur Halldórsdóttir hótelstýra á Hótel Hamri og hljóp með köppunum að afleggjaranum að Hamri. Gunnlaugur Júlíusson lagði af stað hlaupandi úr Reykjavík síðastliðinn sunnudag og ætlar að hlaupa á sex dögunum þjóðveginn til Akureyrar til styrktar Grensásdeild Landsspítalans. Ingimundur Grétarsson verður bílstjóri og aðstoðarmaður Gunnlaugs á leiðinni. Gunnlaugur mun síðan enda hlaupið á setningarhátíð Landsmóts UMFÍ næstkomandi föstudagskvöld.